Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2236  —  302. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um eftirlit með fjármálum einkarekinna leikskóla.


     1.      Hvernig er eftirliti með fjármálum einkarekinna leikskóla háttað?
    Um starfsemi sjálfstætt rekinna leikskóla gilda ákvæði laga um leikskóla, nr. 90/2008, nema annað sé tekið fram. Samkvæmt þeim lögum bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla. Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar.
    Sveitarstjórn getur leyft öðrum aðilum að byggja og reka leikskóla í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Um slíka leikskóla gilda sömu lög og reglur og um aðra leikskóla samkvæmt lögum um leikskóla eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 30. gr. laga um leikskóla. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku. Sveitarfélög skulu setja sér reglur um veitingu rekstrarleyfa. Skulu þær birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélags.
    Í rekstrarleyfi skal skýrt kveðið á um réttindi og skyldur rekstraraðila samkvæmt lögum um leikskóla, um skyldur rekstraraðila til þess að meta með reglubundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins, og láta sveitarstjórn í té gögn og upplýsingar vegna eftirlits. Sveitarstjórnum er heimilt að gera samning við viðkomandi skóla um fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku.
    Sveitarstjórnir bera ábyrgð á fjárhag sveitarfélagsins og ákveðna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna úr sveitarsjóði til handa sjálfstætt reknum leikskólum samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Í sveitarstjórnarlögum er líka fjallað um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.
    Ráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög um leikskóla taka til, að öðru leyti en varðar stofnun og rekstur leikskóla, sbr. IX. kafla laganna, og gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lögin og reglugerð með þeim mæla fyrir um, sbr. V. kafla.
    Að öðru leyti fer um fjármál og ráðstöfun arðs af rekstri sjálfstætt rekinna skóla samkvæmt lagaákvæðum um sjálfseignarstofnanir og lögum um hlutafélög eða annað það rekstrarform sem kann að vera á viðkomandi menntastofnun.

     2.      Hefur ráðuneytið brugðist við því ef einkareknir leikskólar skila ekki ársreikningum í samræmi við lög um ársreikninga, nr. 3/2006?
    Ráðuneytið hefur ekki eftirlit með skilum ársreikninga og hefur því ekki brugðist við í þeim tilvikum sem spurning þessi snýr að.

     3.      Hefur ráðuneytið brugðist við því ef einkareknir leikskólar greiða út arð í trássi við lög um arðgreiðslur? Ef svo er, hvernig?
    Ráðuneytið hefur hvorki sérstakt eftirlit með fjármálum sjálfstætt rekinna leikskóla né heldur aðkomu að ráðstöfun á arði úr rekstri skólanna og hefur því ekki brugðist við í þeim tilvikum sem spurning þessi snýr að.
    Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, er ekki að finna ákvæði um með hvaða hætti ráðstafa skuli rekstrarafgangi af starfsemi sjálfstætt rekinna leikskóla.
    Rétt er þó að geta þess að lög um leikskóla fela ekki í sér heimild fyrir sveitarstjórnir til að veita fé til stofnkostnaðar sjálfstætt rekinna leikskóla líkt og háttar til í lögum um grunnskóla.